21.6.2007 | 10:43
Pínlegt
Ohhhhh ég er ein af þeim sem get hlegið af óförum annarra, en alveg jafn oft fæ ég kjánahroll fyrir hönd þeirra.
T.d. get ég illa horft á listdans á skautum því að ef einhver dettur þá verð ég bara að standa upp og fela mig fyrir þeirra hönd!
Fór í Kringluna um daginn og keyrði upp brekkuna upp bílastæðin á annarri hæð nema á móti mér kemur kona keyrandi niður brekkuna!!! Hún varð frekar kindaleg greyið og ég ætlaði nú bara að bakka og leyfa henni að fara niður en það var kominn bíll fyrir aftan mig svo að konugreyið varð að bakka upp alla brekkuna. Hún hefur greinilega eitthvað fipast meira við þetta því að allt í einu fara rúðuþurrkurnar á fullt hjá henni þrátt fyrir þurrkatíð og við það að slökkva á þeim þá drap hún á bílnum. Mér leið svo illa fyrir hennar hönd að ég átti erfitt og sökk niður í sætið á bílnum mínum. Ég reyndi þó að senda henni samúðarfullt augnaráð en ég er ekki viss um að hún hafi tekið eftir því þar sem hún var upptekin við að finna bakkgírinn á bílnum.
Ég hef alveg átt mín ljóskumóment svo sem. Ég held ég sé að öllu jöfnu alveg sæmilega vel gefin og því er mér fyrirmunað að skilja af hverju ég spurði afgreiðslumanninn stóreygð í Bræðrunum Ormsson hvort að það væri ekki hættulegt að hafa ljós inn í uppþvottavélinni því að það væri náttúrulega stórhættulegt að blanda saman rafmagni og vatni, það veit hvert mannsbarn!!! Hann hélt andlitinu og benti mér góðfúslega á að uppþvottavélar gengu fyrir rafmangi. Hinir afgreiðslumennirnir urðu allir með tölu að skreppa skyndilega á salernið!
Ég skil ekki heldur afhverju ég sagði frá því æst að kafna úr þjóðarrembing í New York að Magnús Ver væri "so strong that he can pull a fokker!"
Ég reyndar sá það með eigin augum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2007 | 22:18
Pink
Áttaði mig ekki alveg á því afhverju eldri erfinginn gekk í bleikum bol og spurði mig áður en ég fór í vinnuna í morgun afhverju ég væri ekki í neinu bleiku. Enn síður fattaði ég afhverju mbl.is var með allt í bleikum lit. Rann upp fyrir mér ljós þegar ég kom heim þegar erfinginn í bleika bolnum tilkynnti mér að hann væri heitur stuðningsmaður þess að konur fengu að vera á þingi! Það er nú aldeilis fínt, uppeldið hefur heppnast ;)
Skrapp út fyrir landsteinanna síðustu helgi. Upphaflega var planað að vera í 3 daga í útlöndum en ónafngreint stórt íslenskt flugfélag hafði af mér heilan dag vegna seinkunnar. Var það mjög svo fústreruð Drilla sem fór út á Leifstöð og eins og sést í kynningunni um mig þá verður jors trúlí mjög viðskotaill þegar hún verður svöng. Vitandi það ákvað helmingurinn að reyna allt hvað hann gat til að koma í veg fyrir skapvonskukast hjá eiginkonunni. Hann hringdi í ónefnda stóra flugfélagið sem er með bláan og gulan lit í logoinu sínu, og bar sig illa. Hann nefndi við þá að hann væri á skilorði vegna þess að hann gleymdi brúðkaupsafmælinu og konan því fyrir frekar hvumpinn fyrir og ekki á það bætandi að hún yrði svöng. Þar sem búið yrði að loka öllum veitingastöðum þegar við kæmum út og það væri þessu ónefnda flugleiða fyrirtæki að kenna þá yrðu þeir eiginlega að sjá til þess að frúin fengi eitthvað að borða þegar hún kæmi upp á herbergi, annars myndi hann ekki þora að deila með mér herbergi! Flugfélagið brást vel við þessari bón, virtist skilja hann mjööög vel og sagði að í sárabætur fyrir að hirða af okkur einn þriðja af ferðinni yrði glaðningur upp á herbergi svo við færum ekki svöng að sofa.
Ég var komin frekar langt með þolinmæðina þegar við loksins komumst upp á hótelherbergi rétt fyrir miðnætti. Enda hafði ég bara fengið smotteríis skinku um borð sem varla var upp í kött á nesi! Við lufsuðumst inn á hótelherbergi og þá gerðist það!!!!
Ég sprakk!!!
Þetta ónefnda flugfélag sem hafði haft af mér einn þriðja af helgarferðinni minni var svo ósvífið að skilja eftir á borðinu á herberginu miða sem á stóð "with compliments from Iceland Air", með þessum miða á borðinu var vatnsflaska, rósavínsflaska og 2 epli!!! Jamm þið lásuð rétt..... 2 FRIGGIN EPLI !!! Um leið og helmingurinn sá þessar "sárabætur" þá sem snöggvast fór hann að skoða neyðarútgönguleiðirnar sem voru hengdar þarna upp á vegg, hann þekkir sína frú.
Fékk sömu skinkuna á leiðinni heim, ákvað samt ekki að taka sjens á henni þar sem lyktin af henni var mun dularfyllri en á leiðinni út!
Feitt kvörtunarbréf er í smíðum til þessara ónefnda flugfélags.
Mæli samt með sýningunni "Blue Men Group" ef þið eruð á faraldsfæti þar sem það er sýnt ;) Vissuð þið að klóaksrör eru snilldar trommur??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2007 | 13:22
Hæfileg refsing?
Ég þarf smá aðstoð frá dómstóli götunnar núna.
Þannig er mál með vexti að undirrituð gekk í heilagt hjónaband fyrir rétt um ári síðan. Sem væri ekki frásögu færandi nema vegna þeirra staðreyndar að helmingurinn minn (sem ég kýs að kalla verri helminginn núna), "gleymdi" fyrsta brúðkaupsafmælisdegi okkar.
Eftir að hafa leitað mér álits reyndari kvenna í þessum málum þá hef ég komist að því að refsirammi fyrir svona brot er allt frá nokkurra daga "silence treatment" að notkunar rottueiturs. Í ljósi þess að ekki er nema einungis rétt rúmt ár frá því að brúðkaupið átti sér stað og því ekki erfitt að muna þetta og þar af leiðandi engin afsökun þá skilst mér að mér sé heimilt að nýta þennan refsiramma nokkuð vel.
Verri helmingurinn ber fyrir sig "að hafa ekki haft hugsun á þessu", sem mér finnst bara undirstrika einbeittan brotavilja.
Brotaþoli er ekki kröfuharður og hefði verri helmingurinn haft rænu á að týna fíbbla á leiðinni heim úr vinnunni þá hefði refsingin mildast verulega. Reyndar gerði verri helmingurinn tilraun til að breiða yfir mistök sín þegar honum var bent á þau og eldaði sæmilegan mat. En þar sem hann gerði það ekki af eigin frumkvæði, og á síðustu stundu þá er svo augljóst að það var gert í þeim tilgangi að sleppa betur og verður því þessi máltíð ekki tekin til greina og nýtist því ekki til refsilækkunar.
Með vísan til forsendna hefur brotaþoli því komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði litið framhjá því hversu alavarlegt málið er og er því hæfileg refsing nokkurra daga silence treatment auk laxerolíu. Er það von mín að þegar líður að brúðkaupsafmæli næstu ára þá muni verri helmingurinn muna eftir þessum degi. Ef ekki vegna brúðkaupsins þá alla vega að hann muni eftir löngum samskiptum við Gustavsberg, slæma ristilkrampa og gyllinæð og afhverju hann upplifði það!
Komi fram nægjanlegar góðar hugmyndir er brotaþoli í fullum rétti að þyngja þessa refsingu.
Hugmyndir óskast!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.6.2007 | 00:19
Æfingabuxur
Veit eiginlega ekki hvort ég þori að viðurkenna þetta, en í dag hef ég verið hérna heima í æfingabuxum og inniskóm og bol! Þetta náttúrulega fer algerlega með ímynd mína sem "flott lady" en jeremías guðbrandur hvað ég var þakklát fyrir þennan klæðnað í dag! 3 daga samfleitt í sparifötum og háum hælum er meira en meira að segja ég þoli!!! Þrír galadinnerar í röð.... í push up sokkabuxum er kvalræði!
Komst að því að það er einmanalegt að vera einn á hótelherbergi :S
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2007 | 15:28
Ljúf sem lamb
Eftir lestur síðustu bloggfærslu minnar má auðveldlega draga þá ályktun að ég sé ofbeldisfull manneskja en það er langt frá hinu sanna get ég sagt ykkur og finnst rétt að leiðrétta þetta.
Ég er vanalega afskaplega dagfarsprúð kona með gott jafnaðargeð, en það eru nokkrir hlutir sem fá mig til að langa til að fremja ofbeldisverk. Listinn er ekki langur, en stærðfræði er þar ofalega á blaði ásamt Woodie Allen og Ace of Bace og konan þarna sem syngur um fjölda reiðhjóla í Bejing.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2007 | 17:46
Sendiboðinn drepinn!
Ég hef alltaf verið frekar óþolinmóð týpa. Hvort sem það snýr að mér sjálfri eða öðrum. Eins á ég voðalega erfitt með að gera hluti nema á kunni þá upp á 10.
Til dæmis sagði mamma mér að ég hefði ekki svo mikið sem gert tilraun til að ganga fyrr en ég var 2ja ára. Fram að því sat ég sem fastast og fylgdist með limaburði fólks í kringum mig, hef kannski æft mig í einrúmi en ekki smuga að ég færi að labba og fljúga á hausinn fyrir framan fólk! Loksins þegar ég stóð upp og labbaði þá eiginlega hljóp ég og mamma minnist þess ekki að ég hafi nokkurntíman dottið. Sama þegar ég lærði að lesa. Mamma reyndi að kenna mér stafina og ég sagði bara við hana að ég vildi ekki kunna þá! Einn góðan veðurdag kom ég heim með bók og las hana upphátt spjaldanna á milli og mamma missti hökuna niður í gólf, og eftir það hef ég alltaf verið með bók nálægt mér til að grípa í, reyndar er mamma hætt fyrir nokkru að missa hökuna niður þegar ég les.
Óþolinmæði mín kemur líka fram þegar ég er að hjálpa afsprengjunum með heimalærdóminn. Aaaaaa aaaa aaaaar iiiiiii áááá óóóó óóóó ó óóóóóó ......... og þarna spryng ég!!! "SÉRÐU ÞAÐ EKKI DRENGUR AÐ ÞAÐ STENDUR ÞARNA ARI Á ÓL" ???!!! Til allra lukku barnanna minna vegna eiga börnin þolinmóðasta pabba norðan alpafjalla og hann hefur bara séð um þessi mál.
Síðustu helgi sat ég snöktandi yfir stærðfræðibókum. Það pirraði alveg svakalega mitt egó að kunna þetta ekki og enn verra fannst mér hvað ég virðist ætla að vera lengi að ná þessu. Mér finnst bara að ég eigi að kunna svona hluti eftir 2ja tíma lestur! Ég hef greinilega eitthvað ofmetið færni mína á sviði stærðfræða, eða hreinlega verið veruleikafyrrt því ég skráði mig í erfiðari áfanga en ég þurfti. Jú sjáið til ég fékk sko 8 í stærðfræði í lokaprófinu í grunnskólanum og því hlaut það að liggja í augum uppi að ég væri stærðfræðiséní?? Ég komst að því um helgina að það getur spilað eitthvað inn í að 18 ár eru síðan ég flaggaði þessari áttu :S
Helmingurinn kom til bjargar. Hann hætti lífi og limum til að hjálpa mér og kenna mér stærðfræði. Ég var orðin svo sótreið yfir þessum táknum og evklíðska drasli að ég hugsaði ekki um annað en helmingurinn minn stæði fyrir því hvað þetta væri erfitt og frekar óskemmtilegt! Það gat bara ekki annað verið að hann, eins illa innrættur og mér fannst hann vera um helgina, hefði plottað þetta og búið til þessar leiðindar formúlur bara til þess eins að skaprauna mér og svo til að gera mig reiðari þá talaði hann og útskýrði þetta eins og þetta væri barasta ekkert mál! Húsið var í lamasessi og börnin löngu búin að fatta að láta ekki sjá sig heima. Hundurinn meira að segja gelti ekki á fréttablaðið eins og vanalega, það var eins og hann vissi að það hefði orðið hans síðasta gelt í þessu lífi!
Við sátum yfir bókunum og ég sá munninn á manninum mínum hreyfast og hann rissaði einhver heil ósköp á blað um leið og hann talaði en ég heyrði ekkert. Ég var einfaldlega of reið út í hann. Ég var of upptekin af því að finna upp aðferðir hvernig ég gæti kyrkt hann! Mér fannst pínu merkilegt að uppgötva að það eru alla vega til 7 aðferðir til að kyrkja fólk!
Þegar hann sá morðglampann í augunum á mér þá hafði hann orð á því greyið að hann væri bara sendiboðinn og ekki við hann að sakast.
Í huganum var ég búin að bakka yfir líkið af sendiboðanum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2007 | 22:38
Talandi um stærðfræði
Ég gafst upp á blaðsíðu 19 í stærðfræðibókinni minni og ákvað að bíða þar til helmingurinn minn kæmi heim til að aðsoða mig. Ekki nóg með að stærðfræðibókin sé stútfull af tölustöfum og táknum heldur er stærðfræðin búin að yfirtaka stafrófið líka!
Svo ég fór á bloggrúnt. Rakst inn á bloggsíðu frænda míns, sem er bæ ðe vei svona vel gefin því að hann var svo vel upp alinn í æsku af frænku sinni (jors trúlí). Hann var eitthvað að tjá sig um Klingenberg og ætlaði ég að kommenta hjá honum að minnast ekki á Klingenberg í eyru ömmu sinnar því að þá er hann fastur vel á þriðja tímann undir fyrirlestri að hans forfeður hafi verið vínræktunarbændur í þýskalandi og heitið Klingenberg! En þar sem ég var ekki innskráð þá varð ég að svara einhverri spurningu út af ruslpóstasíu.
Spurt var: Hver er summan af 7 og 2 ?
Mér var svo misboðið að ég hætti við að kommenta!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2007 | 15:51
Jæja.... ný og endurbætt!
Fór og lét aðeins tjasla mér saman með tilheyrandi skurðveseni og þess háttar. Er betri en ný núna, eða næstum ;)
Evklíðsk rúmfræði?
Hvað er ég búin að koma mér út í? Þetta er náttúrulega sjálfspíning og ekkert annað. Skrá sig í stærðfræði í sumarskóla og ætla sér svo í fjarnám í háskóla í haust? Nennir einhver að slá mig utanundir svo ég komist til veruleikans á ný!
Ekki búast við bloggi fyrr en eftir 4 ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2007 | 12:07
Erfitt líf!
Hvernig á meðal kona sem þarf a.m.k. 2 tíma að taka sig til að geta mætt á fínt opnunarhóf á Kjarvalsstöðum og þurfa svo að mæta klukkutíma síðar í "sveitaþemapartý" ???
Það er deginum ljósara að ekki mæti ég í kúreka átfitti og bomsum á Kjarvalstaði, og enn ljósara að ekki mæti ég í coctail dressi og háum hælum í sveitapartý!!!
Illa innrætt fólk sem setur mann í svona klemmu. Ekki fræðilegur að ég nái að skipta algerlega um lúkk á klukkutíma, ég er enginn Húdíní!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 23:00
Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og svo þjóðin!
Geir: Sérstök ákvörðun ef stjórnarsamstarfið heldur ekki áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)