Talandi um Bingo

Ég er tölusjúk. Ef ég geng upp eða niður tröppur þá tel ég alltaf þrepin, og oftar en ekki hef ég velt fyrir mér hvort að maður telji síðasta þrepið, allt svo gólfið eða ekki. Þótt ég sé á síðustu stundu á hlaupum út þá stekk ég í nælonsokkabuxurnar.... hoppa á öðrum fæti fram um leið og ég set í mig eyrnalokka og rúlla nánast niður tröppurnar en næ að "ein...... sjitt hvað klukkan er orðin margt..... tvær, ég er orðin allt of seint....... þrjár...... ætti ég að fara í lágu stígvélunum eða háu...." o.sv.fr. Alltaf kemst ég að því að tröppurnar í stiganum heima hjá mér eru nákvæmlega jafn margar og þegar ég taldi þær fyrst, jafnvel þótt ég telji síðustu "tröppuna" (gólfið) með!

Ef ég fer í sund eða leikfimi þá vel ég alltaf sama skápinn. 101 er minn skápur, ef hann er upptekinn þá er ég með nokkra varaskápa, 111 eða 88 eða 69 eða 11. Öll þessi númer hafa þann eiginleika að ég get lesið þær eins á hvolfi. Segjum að ég myndi velja skáp 77, ef ég myndi svo kíkja á merkið í miðju skriðsundi og það væri á hvolfi þá stæði alls ekki 77 heldur LL og það yrði nóg til að ég myndi fipast í sundinu, og jafnvel drukkna! Ég myndi halda að ég hefði ruglast á lyklum og núna væri einhver annar með minn lykil! Svo til að forðast allt svona þá er best að hafa reglu á hlutunum, sérviska kallar sambýlingurinn þetta en ég kalla þetta fyrirhyggju og skynsemi.

Ég kvíði fyrir því þegar ég verð búin að helluleggja bílaplanið, er að hugsa um að velja stórar hellur svo að ég mæti ekki of seint í vinnuna á morgnanna við að telja þær, svo er erfitt að stíga ekki á strik á litlum hellum.... að stíga á strik er algert nónó!!

 


Gulli

Ég kraflaði mig fram úr flensuskrattanum og er eins og nýsleginn blómálfur í eggi.

Ekki verra að ég fór og fjárfesti í nýju undursamlegu rúmi sem gerir það að verkum að ég vakna ekki lengur geðvond!

Ég er búin að komast að því að gullfiskar geta verið með læti! Ég er búin að standa upp frá sjónvarpinu 4 sinnum í kvöld til að athuga hvað sé að leka, fatta svo þegar ég geng á hljóðið að Gulli gullfiskur sem er í pössun hjá mér yfir páskana kann að búa til svona gutl hljóð!

Dásamlegt páskafrí framundan, ætla að eyða því í rúminu!


slen

Er að skríða saman 7-9-13 en hnerra þó oftar en ég kæri mig um og er orðin skinnlaus á nefinu. Hugmyndirnar um að vera pæja um helgina verða að bíða, nefið sem ekki er lítið fyrir er stokk bólgið af snýtum!

Ég á æskuvinkonu sem er svakaleg dama og ég er búin að hugsa til hennar í þessum krankleika mínum. Hún nefnilega geymir köflóttan tóbaksklút í veskinu sínu! Hún elskar allt sem viðkemur prinsessum, blingnling og svoleiðis flottheit eru eitthvað sem hún kolfellur fyrir, kórónur og bleik tjullpils og hestar finnst henni æði og nær að lifa drauminn í gegnum dætur sínar. Yndisleg kona og þykir mér óendanlega vænt um hana. EN...... þegar við förum saman út á lífið og hún heillar karlmennina alveg hægri vinstri með fallegu stóru bláu augunum sínum þá langar mig að hverfa ofan í jörðina þegar hún dregur upp klútinn til að snýta sér! Hún hlær bara að mér þegar hún sér mig yggla mig en henni finnst þetta svoooo eðlilegt. Þessi prinsessa er nefnilega sveitavargur líka og slæst við ótamin hross.

Ég er líka dama, og er búin með 6 pakka að þar til gerðum servéttupökkum frá edet með menthol lykt! Held ég hafi klárað 2 pakka á fundi sem ég sat á um daginn og náði að gera það svo dömulega að enginn tók eftir því, eða alla vega voru þeir þá það miklir sjentilmenn að hafa ekki orð á því. En í hvert sinn sem ég tók upp nýtt bréf sem angaði af menthol þá hugsaði ég um vinkonu mína og flissaði innra með mér.

Annars er ég bara að bilast úr sleni og ég held að banamein mitt verði leti....... en það verður örugglega hægt andlát!


Eymd og volæði

Sótthreinsiaðferðir mínar virkuðu ekki sem skildi.

Er með hausinn fullan af hor, og kem engu í verk hérna í vinnunni. Er að kafna úr sjálfsvorkun en finnst það alls ekki duga, er að reyna að fiska eftir vorkun frá öðrum líka. Ég á ógissssliga bátt, er farin að vorkenna kassadrengnum enn meira, ég alla vega veit af hverju hann leit svona Tu***lega út greyið!!!!

Verð geðsleg á fundinum á eftir..... *snýýýt*


Guð hjálpi þér!

Ég er ekki mánudagsmanneskja og ég er alls ekki mars manneskja, reyndar ekki febrúarmanneskja heldur, jaaaaa ef við eigum að kryfja þetta alveg þá er mér lítið um vetur og skammdegi.

Skammdeginu fylgir ekki bara óráðið veður heldur allskonar bakteríur banka upp á.

Vesalings kassadrengurinn í matvörubúðinni í dag er sennilega að stíga upp úr einhverjum kverkaskít eða um það bil að liggja flatur af inflúensum sem herja á hann og var hann ekki sjón að sjá í dag. Ég hálf fann til með honum þar sem hann sat og renndi matnum mínum í gegnum geislann og saug upp í nefið í takt við hvert "bíp" sem heyrðist í geislaapparatinu.

Allt í einu afmyndaðist hann í framan...... varð hálf krumpaður og augun urðu skásett eins og í kínverja og svo kom það sem ég óttaðist..... aaaaaaaatttsjjjúúúúúúúú og svona eins og sjentilmönnum sæmir þá greip hann með hendinni fyrir vit sér svo ég fengi ekki allt gumsið á mig.

Eitthvað hefur skilað sér út um vit hans því að hann horfði vandræðalegur á mig, ennþá með hendina fyrir andlitinu á sér, ég sagði "Guð blessi þig" við hann og sýndist ég sjá þakklætisbros bak við hendina. Með aðra hendina fyrir vitum sér notaði hann hina til að halda áfram að geisla matvöruna sem ég var að versla. Ég raðaði í pokann og sá svo út undan mér hvar hann færði hendina varlega niður að lærinu og þurrkaði afurðirnar sem voru í hendinni í buxurnar. Hann leit flóttalega á mig og vonaðist greinilega til að ég hefði ekki tekið eftir þessu. Til öryggis þá þurrkaði hann hendina líka í peysuna og greip mjólkina og geislaði hana.

Mitt fyrsta verk þegar ég kom heim var að sótthreinsa mjólkurfernurnar og krítarkortið mitt og sambýlingurinn minn horfði á mig stóreygður. Þegar ég setti síðustu mjólkurfernuna inn í ísskáp þá fann ég hvar mig byrjaði að kitla í nefinu......... aaaaatttssssjúúúúúúú.... glumdi frá mér inn í eldhúsi.

"Guð hjálpi þér" heyrðist inn úr sjónvarpsherbergi....... "ertu að kvefast?"

 


Póteitó/Pótató

Ég á vin.

Hann er hamingjusamur.

Hann selur kartöflur.

Fékk mig til að hugsa um daginn. Ég er ekki ennþá búin að finna út hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég er stórhuga. Mig langar að verða svo margt, mig langar að verða lögfræðingur, kennari, listamaður, endurskoðandi, alþingismaður og verslunareigandi.

Vinur minn selur kartöflur. Ég kynntist honum þegar ég flutti í hverfið og þessi maður bankaði upp á og bauð mér kartöflur gegn vægu gjaldi. Fyrst fannst mér þetta skrítið og hugsaði með mér "aumingja maðurinn, ég verð að kaupa af honum kartöflur" og rauk inn og sótti veskið og rétti honum 300 kallinn. Ég ætlaði mér ekkert að kynnast honum neitt frekar en fannst ég hafa gert góðverk með því að kaupa af honum kartöflurnar. Eitthvað fékk mig þó til að líta betur á hann þegar ég tók við kartöflunum og gat ekki annað en brosað þegar ég leit í andlitið á honum. Þessi maður var með stútfullt andlit af broshrukkum. Hann brosti til baka og gaf sig á tal við mig og ég komst að því þegar á leið samtalið að honum var alls engin vorkunn. Hann seldi kartöflur því að honum fannst það svo gaman!

Já hann var búinn að selja kartöflur frá því að hann var 12 ára gutti, einfaldlega því að honum finnst það svo gaman. Hann sagði mér að hann væri búinn að kynnast svo mikið af skemmtilegu fólki í gegnum sitt "fag" og hann greinilega gerði þetta af gleðinni einni saman. Þarna stóð hann með húfuna, broshrukkurnar sínar og sorgarendur undir nöglunum og virtist óendanlega hamingjusamur maður.

Síðan ég flutti í hverfið kemur hann mánaðarlega og selur mér kartöflur og spjallar. Hann kom um daginn því að honum fannst rétt að við  í götunni minni værum "seif" yfir páskana eins og hann orðaði það, já hver getur haldið páska án þess að eiga fullan ísskáp af kartöflum? Í þetta skipti eins og öll hin skiptin sem hann hefur bankað upp á hjá mér þá stuðlar hann að mínum broshrukkumyndun og alltaf er hann glaður. Þegar hann kom þá hafði ég fyrr um daginn pirrað mig í vinnunni yfir tölum sem stemmdu ekki, pirrað mig yfir pappírsstafla sem stækkar bara á borðinu og pirrað mig yfir að fá illa unnin verk í hausinn. Hvað er maður að strita við að reyna að ná fullkomnun í starfi þegar maður getur verið fullkomlega hamingjusamur við að selja kartöflur?

Ég á fullan ísskáp af kartöflum, í rauninni miklu meira en ég þarf. Vinur minn kenndi mér reyndar bestu aðferðina við geymslu á kartöflum, takið þær strax úr pokanum og setjið lausar í grænmetisskúffuna í ísskápnum. Ég er fegin að þurfa ekki að geyma þær í pokanum því að það er það eina sem fer í taugarnar á mér, þessi jarðepli eiga ættir sínar að rekja í bæ einn sem minnir mig alltaf á mann sem hnegist að grjóti, spilar á gítar og langar á þing.

Ef þið lumið á góðum kartöflu uppskriftum þá endilega látið þær flakka :)


testing vonn tú

Leitin að hinu fullkomna bloggsvæði er hafin!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband