Póteitó/Pótató

Ég á vin.

Hann er hamingjusamur.

Hann selur kartöflur.

Fékk mig til að hugsa um daginn. Ég er ekki ennþá búin að finna út hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég er stórhuga. Mig langar að verða svo margt, mig langar að verða lögfræðingur, kennari, listamaður, endurskoðandi, alþingismaður og verslunareigandi.

Vinur minn selur kartöflur. Ég kynntist honum þegar ég flutti í hverfið og þessi maður bankaði upp á og bauð mér kartöflur gegn vægu gjaldi. Fyrst fannst mér þetta skrítið og hugsaði með mér "aumingja maðurinn, ég verð að kaupa af honum kartöflur" og rauk inn og sótti veskið og rétti honum 300 kallinn. Ég ætlaði mér ekkert að kynnast honum neitt frekar en fannst ég hafa gert góðverk með því að kaupa af honum kartöflurnar. Eitthvað fékk mig þó til að líta betur á hann þegar ég tók við kartöflunum og gat ekki annað en brosað þegar ég leit í andlitið á honum. Þessi maður var með stútfullt andlit af broshrukkum. Hann brosti til baka og gaf sig á tal við mig og ég komst að því þegar á leið samtalið að honum var alls engin vorkunn. Hann seldi kartöflur því að honum fannst það svo gaman!

Já hann var búinn að selja kartöflur frá því að hann var 12 ára gutti, einfaldlega því að honum finnst það svo gaman. Hann sagði mér að hann væri búinn að kynnast svo mikið af skemmtilegu fólki í gegnum sitt "fag" og hann greinilega gerði þetta af gleðinni einni saman. Þarna stóð hann með húfuna, broshrukkurnar sínar og sorgarendur undir nöglunum og virtist óendanlega hamingjusamur maður.

Síðan ég flutti í hverfið kemur hann mánaðarlega og selur mér kartöflur og spjallar. Hann kom um daginn því að honum fannst rétt að við  í götunni minni værum "seif" yfir páskana eins og hann orðaði það, já hver getur haldið páska án þess að eiga fullan ísskáp af kartöflum? Í þetta skipti eins og öll hin skiptin sem hann hefur bankað upp á hjá mér þá stuðlar hann að mínum broshrukkumyndun og alltaf er hann glaður. Þegar hann kom þá hafði ég fyrr um daginn pirrað mig í vinnunni yfir tölum sem stemmdu ekki, pirrað mig yfir pappírsstafla sem stækkar bara á borðinu og pirrað mig yfir að fá illa unnin verk í hausinn. Hvað er maður að strita við að reyna að ná fullkomnun í starfi þegar maður getur verið fullkomlega hamingjusamur við að selja kartöflur?

Ég á fullan ísskáp af kartöflum, í rauninni miklu meira en ég þarf. Vinur minn kenndi mér reyndar bestu aðferðina við geymslu á kartöflum, takið þær strax úr pokanum og setjið lausar í grænmetisskúffuna í ísskápnum. Ég er fegin að þurfa ekki að geyma þær í pokanum því að það er það eina sem fer í taugarnar á mér, þessi jarðepli eiga ættir sínar að rekja í bæ einn sem minnir mig alltaf á mann sem hnegist að grjóti, spilar á gítar og langar á þing.

Ef þið lumið á góðum kartöflu uppskriftum þá endilega látið þær flakka :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband