Dagur í lífi konu með sítt hár!

Ég er með slatta af hári á hausnum, eiginlega nær það þónokkuð niður fyrir herðablöð og hefur oft hvarflað að mér að láta klippa mig og verða fullorðin en ég er ekki alveg tilbúin fyrir "fullorðna lúkkið" ennþá.

Þegar ég vakna á morgnanna og skreiðist á lappir þá er hausinn á mér frekar skondinn, furðuleg hrúga á hausnum á mér og það er engu líkara en að storkur hafi gert sér hreiður á toppstykkinu á mér. Eftir að hafa gefið afleiðingunum morgunmat og sent þau af stað að drekkja í sig þekkingu þá sæki ég hárburstann og reyni að komast í gegnum þetta hreiður, rétt á meðan vatnið í sturtunni er að hitna.

Í sturtu þá gerist ég sek um óvistvænt verk. Um það bil hálfur líter af sjampó og hárnæringu rennur frá mér út í sjó á degi hverjum en það er eina leiðin til að ég ráði við þetta hár! Þegar sturtan er búin smelli ég handklæði utan um hárið og í móðunni á speglinum þá svipar mér fljótt á litið til Múhammed Assiri með þennan flotta túrban á hausnum. En með þetta höfuðfat á hausnum tekst mér að þurrka mig, smyrja mig með allskonar vellyktandi kremum, klæða mig og hreinsa úr niðurfallinu á sturtunni. Það sem kemur þar upp úr er eitthvað hrúgald sem Liz Taylor gæti haft augastað á sem kollu.

Þá er það hárið..... Þegar kemur að því þá stend ég frammi fyrir nokkrum kostum. Mis fyrirhafnar og tímafrekum. Valkvíði.

a) Ég get verið með villtar krullur.

b) Ég get farið millileiðina og valið svona rúmlega liðað hár.

c) Ég get verið með rennislétt hár.

d) Ég get sett það í tagl.

Kostur a) er svona miðlungs tímafrekur. Til að ná fullkomnum krullum er best að sleppa því að greiða hárið og brúka fljótandi glaze í hárið, taka fram hárþurrkuna (eða það sem yngri afleiðingin mín kallar hana "vindtækið") og smella framan á hana trekt og þurrka smá blett í einu. ALLS EKKI nudda hárið eða hrista vindtækið því að þá verð ég eins og Michael Jackson um það leitið sem hann lék í Pepsi auglýsingunni.

Kostur b) er í rauninni mjög góður hvað varðar tíma, en áhættan sem fylgir þessu lúkki er gríðarleg. Liðað hár næst með því að greiða hárið eftir að handklæðið hefur verið fjarlægt og núna er tekið öllu stærra skref í áttina að gróðurhúsaáhrifunum og ein 2-3 efni sett í hárið (efast um að Vinstri grænir vilji hvort eð er atkvæði mitt), það svo aftur greitt og látið þorna svona "natural way". Frábærlega sniðugt, sérstaklega ef maður er á hraðferð, en galli á gjöf Njarðar er sú að þetta er mjög áhættusamt. Því ómögulegt er að vita hvernig hárið þornar. Það getur þornað algerlega í fullkomnum liðum. Það getur líka orðið líkara Michael Jackson í áðurnefndri pepsi auglýsingu...... eftir brunaslysið!  það getur líka verið hvimleitt að vera með rennandi blautt bak á meðan þetta þornar.

Kostur c)  er svaaaaakalegur. Þá þarf bæði að munda vindtækið og sléttujárn. Sléttujárnið er ekki hægt að nota nema að hárið sé þurrt svo að þetta getur verið ansi tímafrekt. Samt nokkuð umhverfisvænt að því leiti að ekki mikið af efnum er brúkað. Hinsvegar er þessi kostur bara raunhæfur ef ég er frekar nýkomin úr hárlitun, rót verður mjög áberandi í sléttu hári. Eins er þetta alls ekki sniðugur kostur ef það er rigning úti!

Kostur d) er í rauninni alls ekki kostur, hann er meira svona neyðarúrræði ef maður hefur t.d. sofið yfir sig. Neyðist ég til að nota þennan kost þá reyni ég að fara huldu höfði í vinnunni, læsi hurðinni á skrifstofunni minni og bruna svo beinustu leið heim eftir vinnu og kem hárinu í ástand a, b eða c.

Svo er bara að leggjast á bæn og óska þess að veðrið verði manni hliðhollt og maður lendi ekki í mikilli ofankomu eða roki, því að þá öðlast hárið sjálfstæðan vilja og við höfum alls ekki sama smekk!

Dagur í lífi konu með sítt hár er að kveldi kominn. Þegar ég leggst upp í rúm þá sækir hárið mjög framan í mig og getur verið alveg svakalega hvimleitt að skyrpa út úr sér eigin hári sem ennþá er fast á hausnum á manni. En eftir að maður sofnar þá finnur maður ekki fyrir því að vera með heysátu á andlitinu, eina sem truflar svefninn er þegar helmingurinn minn leggst á hárið, það getur verið vont.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Júlía

Hehehe... og ég sem öfundaði alltaf ykkur krullhærðu .  Ég kaus neyðarúrræði  d) í dag.. ótrúlega þægilegt þegar maður mætir klukkan sex í vinnu sem er btw..þrisvar í viku! 

Ester Júlía, 2.5.2007 kl. 14:10

2 Smámynd: Hugarfluga

Möguleikinn á d) er samt alveg ótrúlega mikilvægur! Finn það sérstaklega núna eftir að hárið mitt var klippt til Úsbekistan!!

Hugarfluga, 2.5.2007 kl. 17:49

3 identicon

d) í dag hjá mér enda svo mikil þörf orðin á litun að það er eiginlega til háborinnar skammar!

Hinsvegar er ég með sítt, eða, hef alltaf verið með, nú er þetta svona millisítt eitthvað.  Mér finnst þetta aldrei vesen, ég er svo hrokkinhærð frá náttúrunnar að ég er eiginlega bara mjög þakklát fyrir það að þurfa ekkert að hafa fyrir þessu. 

Ragga (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband