2.5.2007 | 19:28
Sumir dagar.... Sumardagar
Ég hélt að seinniparturinn í dag yrði sumardagur. Keyrði heim örugglega á rúmlega leyfilegum hámarkshraða sem er mjög ólíkt mér og byrjaði að fækka spjörunum strax í forstofunni. Mér lá svo á að komast út í sólina að ég bað eldri afleiðinguna um að taka upp úr innkaupapokanum og ganga frá því fyrir mig. Ég er nefnilega orðin svooo sólarþurfi.
Ég náði mér í teppi og púða og valhoppaði út.
Ég er ekki viss um að báðir fæturnir hafi verið komnir yfir þröskuldinn þegar ég fann að bikiní væri sennilega ekki málið í dag, ég fór sneipt inn og minnti sjálfa mig á að það væri rétt kominn 2. maí og ég væri kannski full bráðlát með bikiníið. Mér fannst bara einhvernveginn eftir að hafa séð myndir af fáklæddum börnum sulla í sjónum fyrir norðan að það væri orðið hlýrra.
Ég gerði aðra tilraun og í þetta skipti var ég nú komin í stuttbuxur og bol. Ég komst örlítið lengra en fyrra skiptið en þurfti að snáfa aftur inn og klæða mig.
Að lokum lagðist ég út, fullklædd og í þykkri peysu, undir teppi og hlustaði á frumburðinn spila á gítar. Eftir margra ára "sexstrengja" óhljóð frá þessu hljóðfæri er drengurinn loksins farinn að framkalla yyyyndislega tónlist úr kassagítarnum sínum og var því leiðin greið inn í draumaland.
Klukkutíma síðar rankaði ég við mér sennilega með líkamshita upp á 32 gráður. En svei mér þá ef mér hefur ekki tekist að næla mér í smá lit, komin með rjóðar kinnar :)......
.....................Nema þetta séu kannski kalblettir?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.