Bækur og freknur

Það sem ég beið eftir í síðasta blogginu mínu brast á í dag :)

Ég sat úti í allan dag og las. Ég var að lesa um leitina af tilgangi lífsins eftir Viktor Frankl, en hann lifði af útrýmingabúðir nasista. Þessi bók er alveg meiriháttar og segir meira frá hvað fer í gegnum hugann á fólki sem lendir í hræðilegri lífsreynslu og hvernig það vinnur úr aðstæðum frekar en að segja frá þessari upplifun sem slíkri.

Vandinn við mig er að þegar ég byrja að lesa þá á ég erfitt með að leggja frá mér bókina fyrr en ég er búin með hana. Ég gersamlega fer inn í bókina, ég upplifi allt sem gerist þarna, heyri hljóð, finn lykt og finnst ég bara vera komin á staðinn. Skrítna við það að stundum gerist eitthvað í umhverfinu sem gerir það að verkum að þessi upplifun verður enn sterkari og áhrifaríkari en maður á von á. Til dæmis var ég á kafi í útrýmingabúðum í Auschwitz í dag, eða hugur minn réttara sagt var þar en ég sat í skotinu hérna við húsið, úti í góða veðrinu. Ég hrekk upp við að tveir vinnumenn sem voru að gera við hús í nágrenninu fóru að kallast á og ég gat ekki betur heyrt að þeir væru pólskir. Ég starði smá stund á hunangsflugu sveima þarna nálægt mér (bæ ðe vei..... hvernig geta þessi flykki flogið???) en sökkti mér ofan í lestur bókarinnar aftur.

Ég var að lesa um eymdina sem höfundurinn upplifði og meðal annars þegar hann talaði um dauðann. Ég var svoooo á kafi í þeim kafla þegar ég heyri óminn af "ave maria" og ég hélt að ég væri orðin alvarlega ímyndunarveik. Ég leit upp og enn heyrði ég þetta. Það var ekki um að villast að nágranni minn var að hlusta á útfaratónlist!! Ég hætti að lesa í smá stund, lyngdi aftur augunum og leyfði sólinni að baka mig í framan á meðan ég hugsaði um það sem ég hafði lesið.

***

Ég hef lent í svona áður. Eitthvað tengt því sem ég er að lesa gerist í kringum mig þegar ég er svo gott sem inn í bókinni. Heimilisfólkið hérna þekkir mig það vel að það veit að þegar ég er með bók í hönd þá er ég sambandslaus, og þar til bókin er búin þýðir ekkert að vola yfir skort á hreinum sokkum eða vöntun á almennilegum kvöldmat. En til allra lukku er þetta heimilisfólk mitt það vel gefið að það veit hvernig það getur stytt svona ástand. Það getur borið í mig mat á meðan ég les og þá þarf ég ekki að gera hlé á lestrinum til að bjarga mér sjálf.

Það er nú ekki oft sem það eru til ferskjur hérna á heimilinu, en þegar ég las um bíflugurnar og þeirra leyndardóm þá var ég komin inn í bókina eins og oft áður en sagan gerist á ferskjubúgarði. Ég er að skottast þarna um á milli ferskjutrjánna með aðalsöguhetjunni, sá fiðrildin flögra um og horfði á ferskjurnar sem voru orðnar vel þroskaðar, þegar ég finn þessa svakalegu ferskjulykt. Ég var í smástund að átta mig á að hún kom ekki úr bókinni heldur "utan frá". Ég leit upp og þarna stóð helmingurinn minn með disk handa mér með niðurskorni ferskju á og rétti mér!! Ég hélt að hakan á mér dytti niður í gólf. En ég hélt lestrinum áfram og nartaði í ferskjur á meðan, þetta var bara ekki hægt að toppa! Þetta var albesta ferskja sem ég hef á ævinni smakkað!

***

Sumarliturinn er að færast yfir mig. Ég er eeeeldrauð og svei mér þá ef það hafa ekki bara fæðst nokkrar freknur á mér í dag. Góður dagur og ég er þakklát.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Júlía

Vá magnað þetta með ferskjurnar ..já og pólverjana og ave maria!  Ég man nú ekki eftir svona atvikum þegar ég er að lesa bækur.  En ég get lifað mig gjörsamlega inn í góðar bækur og nánast fundið lykt.  Þessa bók sem þú ert að lesa verð ég að ná mér í.  Ég las "Ég lifi" eftir Martin Grey..og ég man hvað sú bók hafði mikil áhrif á mig og sat lengi í mér.  Hafðu það gott í dag mín kæra   ( ps. fæ voffa á laugardaginn eftir síðasta prófið..er SVO spennt...)

Ester Júlía, 15.5.2007 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband