Sendiboðinn drepinn!

Ég hef alltaf verið frekar óþolinmóð týpa. Hvort sem það snýr að mér sjálfri eða öðrum. Eins á ég voðalega erfitt með að gera hluti nema á kunni þá upp á 10.

Til dæmis sagði mamma mér að ég hefði ekki svo mikið sem gert tilraun til að ganga fyrr en ég var 2ja ára. Fram að því sat ég sem fastast og fylgdist með limaburði fólks í kringum mig, hef kannski æft mig í einrúmi en ekki smuga að ég færi að labba og fljúga á hausinn fyrir framan fólk! Loksins þegar ég stóð upp og labbaði þá eiginlega hljóp ég og mamma minnist þess ekki að ég hafi nokkurntíman dottið. Sama þegar ég lærði að lesa. Mamma reyndi að kenna mér stafina og ég sagði bara við hana að ég vildi ekki kunna þá! Einn góðan veðurdag kom ég heim með bók og las hana upphátt spjaldanna á milli og mamma missti hökuna niður í gólf, og eftir það hef ég alltaf verið með bók nálægt mér til að grípa í, reyndar er mamma hætt fyrir nokkru að missa hökuna niður þegar ég les.

Óþolinmæði mín kemur líka fram þegar ég er að hjálpa afsprengjunum með heimalærdóminn. Aaaaaa aaaa aaaaar iiiiiii   áááá  óóóó óóóó ó óóóóóó ......... og þarna spryng ég!!! "SÉRÐU ÞAÐ EKKI DRENGUR AÐ ÞAÐ STENDUR ÞARNA ARI Á ÓL" ???!!! Til allra lukku barnanna minna vegna eiga börnin þolinmóðasta pabba norðan alpafjalla og hann hefur bara séð um þessi mál.

Síðustu helgi sat ég snöktandi yfir stærðfræðibókum. Það pirraði alveg svakalega mitt egó að kunna þetta ekki og enn verra fannst mér hvað ég virðist ætla að vera lengi að ná þessu. Mér finnst bara að ég eigi að kunna svona hluti eftir 2ja tíma lestur! Ég hef greinilega eitthvað ofmetið færni mína á sviði stærðfræða, eða hreinlega verið veruleikafyrrt því ég skráði mig í erfiðari áfanga en ég þurfti. Jú sjáið til ég fékk sko 8 í stærðfræði í lokaprófinu í grunnskólanum og því hlaut það að liggja í augum uppi að ég væri stærðfræðiséní?? Ég komst að því um helgina að það getur spilað eitthvað inn í að 18 ár eru síðan ég flaggaði þessari áttu :S

Helmingurinn kom til bjargar. Hann hætti lífi og limum til að hjálpa mér og kenna mér stærðfræði. Ég var orðin svo sótreið yfir þessum táknum og evklíðska drasli að ég hugsaði ekki um annað en helmingurinn minn stæði fyrir því hvað þetta væri erfitt og frekar óskemmtilegt! Það gat bara ekki annað verið að hann, eins illa innrættur og mér fannst hann vera um helgina, hefði plottað þetta og búið til þessar leiðindar formúlur bara til þess eins að skaprauna mér og svo til að gera mig reiðari þá talaði hann og útskýrði þetta eins og þetta væri barasta ekkert mál! Húsið var í lamasessi og börnin löngu búin að fatta að láta ekki sjá sig heima. Hundurinn meira að segja gelti ekki á fréttablaðið eins og vanalega, það var eins og hann vissi að það hefði orðið hans síðasta gelt í þessu lífi!

Við sátum yfir bókunum og ég sá munninn á manninum mínum hreyfast og hann rissaði einhver heil ósköp á blað um leið og hann talaði en ég heyrði ekkert. Ég var einfaldlega of reið út í hann.  Ég var of upptekin af því að finna upp aðferðir hvernig ég gæti kyrkt hann! Mér fannst pínu merkilegt að uppgötva að það eru alla vega til 7 aðferðir til að kyrkja fólk!

Þegar hann sá morðglampann í augunum á mér þá hafði hann orð á því greyið að hann væri bara sendiboðinn og ekki við hann að sakast.

Í huganum var ég búin að bakka yfir líkið af sendiboðanum!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Viðar

Þú hefðir betur lært heima á sínum tíma en að vera að kvelja frændsystkini þín

Haukur Viðar, 4.6.2007 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband