21.6.2007 | 10:43
Pínlegt
Ohhhhh ég er ein af þeim sem get hlegið af óförum annarra, en alveg jafn oft fæ ég kjánahroll fyrir hönd þeirra.
T.d. get ég illa horft á listdans á skautum því að ef einhver dettur þá verð ég bara að standa upp og fela mig fyrir þeirra hönd!
Fór í Kringluna um daginn og keyrði upp brekkuna upp bílastæðin á annarri hæð nema á móti mér kemur kona keyrandi niður brekkuna!!! Hún varð frekar kindaleg greyið og ég ætlaði nú bara að bakka og leyfa henni að fara niður en það var kominn bíll fyrir aftan mig svo að konugreyið varð að bakka upp alla brekkuna. Hún hefur greinilega eitthvað fipast meira við þetta því að allt í einu fara rúðuþurrkurnar á fullt hjá henni þrátt fyrir þurrkatíð og við það að slökkva á þeim þá drap hún á bílnum. Mér leið svo illa fyrir hennar hönd að ég átti erfitt og sökk niður í sætið á bílnum mínum. Ég reyndi þó að senda henni samúðarfullt augnaráð en ég er ekki viss um að hún hafi tekið eftir því þar sem hún var upptekin við að finna bakkgírinn á bílnum.
Ég hef alveg átt mín ljóskumóment svo sem. Ég held ég sé að öllu jöfnu alveg sæmilega vel gefin og því er mér fyrirmunað að skilja af hverju ég spurði afgreiðslumanninn stóreygð í Bræðrunum Ormsson hvort að það væri ekki hættulegt að hafa ljós inn í uppþvottavélinni því að það væri náttúrulega stórhættulegt að blanda saman rafmagni og vatni, það veit hvert mannsbarn!!! Hann hélt andlitinu og benti mér góðfúslega á að uppþvottavélar gengu fyrir rafmangi. Hinir afgreiðslumennirnir urðu allir með tölu að skreppa skyndilega á salernið!
Ég skil ekki heldur afhverju ég sagði frá því æst að kafna úr þjóðarrembing í New York að Magnús Ver væri "so strong that he can pull a fokker!"
Ég reyndar sá það með eigin augum!
Athugasemdir
Jóna Á. Gísladóttir, 21.6.2007 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.