22.6.2007 | 18:14
Allt að!
Mér er búið að svima í heila viku, byrjaði allt á því að ég klöngraðist upp í turn sem var rúmlega 200m hár og glápti niður og síðan þá er ég búin að vera hálf rugluð í hausnum.
Ég fór loks til læknis í gær sem nældi sér í smá blóð úr mér og ætlar að sjúkdómsgreina lofthræðsluna endanlega í næstu viku vonandi. En annars tók ég forskot á sjúkdómsgreininguna á meðan ég sat á biðstofunni í gær.
Á borðinu lá bæklingur um MS og þar sem takmarkað er að skemmtilegu lesefni á biðstofum hjá heimilislæknum þá var þetta það skársta sem ég gat drepið tímann með. Eftir að hafa rennt yfir einkennin í bæklingnum þá lá þetta nokkuð ljóst fyrir, ég var greinilega með MS! ÖLL einkennin pössuðu við mig!
Þetta var vissulega sjokk, ég sá fram á að þurfa að selja húsið því það er á 2 hæðum og það er vonlaust fyrir fólk í göngugrind og svona í geðshræringu minni greip ég annan bækling af borðinu..... PARKISON. Eftir lesturinn þá vandaðist málið því að öll einkennin smellpössuðu við mín einkenni og svimi var þar hátt skrifaður rétt eins og hjá MS.
Hálf ringluð lagði ég frá mér bæklinginn. Ég leit í kringum mig á biðstofunni og upp á vegg var plaggat þar sem helstu einkenni heilablóðfalls voru talin upp. Það var ekki um að villast að ég var við það að fá slæmt heilablóðfall, jafnvel var ég nokk viss að gúlpur í hausnum á mér var sprunginn ollreddí!
Þegar læknirinn loksins kallaði mig inn til sín var ég búin að lesa nokkra bæklinga og komast að því að ég var með MS, Parkison, sprunginn æðagúlp, legslímuflakk, mjólkuróþol og þvagleka! Gott ef ég var bara ekki ólétt líka með byrjunareinkenni af Alzheimer og mígreni!
Athugasemdir
hahahahahahahahahahahaha....*þurrkatár* fyrirgefðu elsku Drilla mín.. þó að ég hafi grátið úr hlátri yfir þessari færslu! Og hvað var þetta svo .....kvef?
Ester Júlía, 22.6.2007 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.