6.7.2007 | 10:16
Sólin í pásu
Og þá skreiðist ég aftur inn. Búin að vera að drukkna í garðvinnu og það er ekki leiðinlegt í svona blíðu :)
Ég elska þetta letilíf, litli guttinn í Vatnaskógi og kallinn að berja allar ár sem hann kemst í með veiðistöng og ég og frumburðurinn bara búin að vera að dúlla okkur.
Betri helmingurinn minn stakk upp á því fyrir nokkrum árum að við myndum gera veiðisportið að fjölskylduíþrótt og þar sem ég er opin fyrir öllu sem stuðlar að því að fjölskyldan geri eitthvað saman þá ákvað ég að prufa.
Við fórum saman fjölskyldan með veiðistangir í eitthvað vatn, ég reyndar var sú eina sem var ekki vopnuð veiðistöng því ég var þarna sem sérlegur aðsoðamaður. Kallinn minn batt fimlega flugur á sína stöng, og svo þræddi hann maðka á stöngina hjá erfingjunum. Það var þá sem ég byrjaði að snökta. Ég bara vorkenndi maðkinum svo mikið að ég varð að fara afsíðis og jafna mig og kallinn hló að mér!
Þrír menn örkuðu út í vatnið, einn stór og 2 litlir og mamman sat á bakkanum og horfði stolt á strákana sína. Allt í einu veinar frumburðurinn "HJÁLP" og ég sé hvernig stöngin bognar og pabbinn hleypur að krónprinsinum til að aðstoða hann, nema í miðjum hamaganginum hjá þeim heyrist "HJÁLP" frá hinum unganum mínum sem stóð þarna með bogna stöng og spratt ég á lappir þar sem ég átti alveg eins von á að fiskurinn myndi draga hann út í vatnið. Við náðum að landa fisknum og stóðum þarna og horfðum á hann á meðan hann spriklaði greyið, barðist upp á líf og dauða. Við litum á hvort annað og vissum ekki hvað við áttum að gera við greyið þegar pabbinn og sá eldri koma askvaðandi að. Pabbinn dregur upp eitthvað járnstykki, grípur fiskinn og lemur hann í hausinn svo hann lá á bakkanum hreyfingalaus. Einstaka kippir komu þó í hann.
Ég starði á þetta gerast og þegar fiskurinn hætti að kippast til þá leit ég tárvotum augum á strákana mína. Pabbinn stóð þarna sigri hrósandi, gersamlega að rifna úr stolti af guttunum sínum en við hin þrjú störðum á fiskinn gersamlega frosin. Loks heyrist í frumburðinum "mamma........ ég ætla með bænirnar mínar í kvöld", sá yngri var fljótur að taka undir "ég líka", ég fór að vola og tók utan um þá og við sungum snöktandi yfir fisknum "ó Jesú bróðir besti".
Fjölskyldufaðirinn hefur ekki boðið okkur með í veiði aftur!
Athugasemdir
Hahahaha......skemmtilegir veiðifélagar
Hafdís (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 01:54
Haha..ææ...jiiiii hvað ég skil þig annars vel! Ég er álíka góður veiðifélagi og þú
Ester Júlía, 11.7.2007 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.