10.9.2007 | 17:25
Taugaveiklunarjátning
Já, mér er illa við að fljúga, ég er pínu hraphrædd nefnilega, mér er illa við ókunnuga ketti og ég missi stjórn á þvagi ef ég kem nálægt hestum!
En allt þetta er hátíð miðað við hræðslu mína á eld!!!
Ég varð fyrir því fyrir nokkrum árum að ég sat hérna heima í makindum mínum en fór að finna brunalykt. Það var sunnudagseftirmiðdagur og gott sumarveður og ég gerði bara ráð fyrir að nágrannarnir væru að grilla. Eftir smá tíma þegar grilllyktin fór vaxandi þá stóð ég upp að kanna málið, enda meira en lítið skrítin grillolía sem þeir voru að nota því að þetta var langt í frá girnileg lykt. Ég opnaði hurðina á herberginu sem ég sat í og við mér blasti að húsið var fullt af reyk!
Ég byrjaði eins og fáviti að opna útidyrahurðina ef þetta væri lykt að utan (sem gat ekki verið því að húsið var fullt af reyk), og þegar ég hafði fullvissað mig um að þetta var jú innandyra þá hófst leitin að eldinum. Hlutir eins og sjónvarp, þvottavél, þurrkari og uppþvottavél komu fyrst upp í hugann og hljóp ég hérna á milli herbergja gersamlega sturluð. Loks leit ég upp á efri hæðina og sá svartan reyk koma á móti mér niður stigann. Í sömu andrá opnuðu afsprengin mín útidyrnar og annar veinaði "ÓNEI ....... LAMPINN!!!!". Hann hafði gert sér tjald úr dýnum og teppum og tók með inn í það halogen lampa. Hann vissi að það mátti ekki akkúrat út af þessari ástæðu.... það gæti kviknað í.... nema að hann fór út að leika sér og gleymdi þessu, teppið og dýnurnar duttu ofan á lampann og úr varð þessi fíni varðeldur.
Ég gargaði á frumburðinn að koma sér og litla bróður út og hringja í 112, á meðan fyllti ég skaftpott af vatni, skreið upp (vissi að maður átti að halda sig við gólfið), skreið inn í umrætt herbergi og þar sá ég ekki handa minna skil fyrir kolsvörtum, þykkum reyk. Ég fann innstunguna og náði að kippa lampanum úr sambandi áður en ég skvetti í átt að eldnum úr skaftpottinum, rauk svo niður að sækja meira vatn en skipaði börnunum að halda sig úti. Frumburðurinn var með 112 í símanum sem skipaði mér að koma mér út líka, en ég gat það ekki því ég varð að bjarga húsinu...... með skaftpottinum!!!
Það er skemst frá því að segja að slökkviliðið kom hérna og snarlega slökkti í herberginu, reykræsti og við máttum ekki sofa hérna í nokkrar nætur. Ég fékk snert af reykeitrun og það sprakk rúða í umræddu herbergi. Það tók rúmlega hálft ár að koma efri hæðinni í samt lag aftur (og er ekki einu sinni fullklárað vegna frestunaráráttu helmingsins, en það er önnur saga)!
Taugaveiklun mín er kannski ekki beint hræðsla við eldinn sjálfann. Mér finnst meira að segja eldur pínu spennandi og ég ber virðingu fyrir honum, hinsvegar endurupplifi ég oft ef ég finn bruna eða hitalykt stundina þegar ég var að leita að eldinum. Þetta er líka sívinsæl martröð hjá mér, það "að hlaupa í slow motion undan morðingja - martröðin" vék algerlega fyrir þessari, "að finna ekki eld í reykjarkófi - martröð".
Ég er búin að þróa með mér sérstaka hæfileika að finna hita/brunalykt úr mikillri fjarlægð. Ef það springur pera hjá nágrannanum þá finn ég lyktina af því liggur við. Og með þanda nasavængi hleyp ég um eins og höfuðlaust hænsn að leita að eld!!!
Þessi játning var óhjákomuleg svo þið getið skilið næstu bloggfærslu mína.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.