Ég kemst í hátíðarskvap

Það er búið að lengja jólin alveg ferlega, sérstaklega þó í annan endann!

Í október er fólk farið að huga að jólaskreytingum og finnst sumum það fullsnemmt, jólalög eru farin að heyrast á stangli í lok október og fólk er mis hrifið af því.

Ég skal glöð skreyta húsið með grænum baunum í september og spila ekkert annað en jólalög í 3 mánuði frekar en að byrja á átinu svona snemma. Það nefnilega fylgir jólunum nokkurskonar leyfi til að éta allt sem manni langar í þegar manni langar í það samviskulaust. Malt og appelsín og nóa konfekt er bara fyllilega góður morgunmatur svona í aðventunni og algerlega í löglegur á þessum árstíma, ég meina jólin eru bara einu sinni á ári! En með svona snemmbúnum jólaklikkhausum þá eru jólin ennþá bara einu sinni á ári, en þau eru í 3 mánuði! Til dæmis byrjaði Myllan að selja uppáhalds jólatertuna mína fyrir mánuði síðan, brún randalína sem ég bara get ekki fengið leið á. Það er náttúrulega móðgun við jólin að skola henni niður með öðru en maltblandi. Kókostoppar og pipakökur eru líka fáanleg núna og hafa algerlega tekið við af múslíinu og ab mjólkinni sem kjarngóður morgunverður.

Það er ekki seinna vænna en að tékka á því hvort að jólamakkintosið sé í lagi og fórna sér í að bragða á einum og einum mola til að kanna gæðin. Svona nammi geymist náttúrulega ekki endalaust!

Mér hefur tekist að bíða með að baka smákökurnar en sé fram á að það fari að bresta á, og hvar haldið þið að þær endi? Í minns eigin maga sennilega og þaðan beinustu hraðleið á mjaðmirnar! Svo fær maður ný teygjanleg náttföt í jólagjöf sem maður býr í fram á þrettándann!

Ég finn hátíðarskvapið laumast aftan að mér.

Það vill til að eftir þessa átveislu þá byrjar landinn að éta úldinn mat, súran og ógeðslegan og ég tek ekki þátt í þeirri vitleysu, svo ég á mér von. Verð vonandi búin að ná hátíðarspikinu af mér fyrir páskaátið, hef svo 2 mánuði eftir það að komast í bikinífært ástand áður en grillvertíðin byrjar í sumar!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahahahaha

Þú ert alveg milljón sæta

Albertína (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband