Færsluflokkur: Bloggar
14.5.2007 | 22:49
Bækur og freknur
Það sem ég beið eftir í síðasta blogginu mínu brast á í dag :)
Ég sat úti í allan dag og las. Ég var að lesa um leitina af tilgangi lífsins eftir Viktor Frankl, en hann lifði af útrýmingabúðir nasista. Þessi bók er alveg meiriháttar og segir meira frá hvað fer í gegnum hugann á fólki sem lendir í hræðilegri lífsreynslu og hvernig það vinnur úr aðstæðum frekar en að segja frá þessari upplifun sem slíkri.
Vandinn við mig er að þegar ég byrja að lesa þá á ég erfitt með að leggja frá mér bókina fyrr en ég er búin með hana. Ég gersamlega fer inn í bókina, ég upplifi allt sem gerist þarna, heyri hljóð, finn lykt og finnst ég bara vera komin á staðinn. Skrítna við það að stundum gerist eitthvað í umhverfinu sem gerir það að verkum að þessi upplifun verður enn sterkari og áhrifaríkari en maður á von á. Til dæmis var ég á kafi í útrýmingabúðum í Auschwitz í dag, eða hugur minn réttara sagt var þar en ég sat í skotinu hérna við húsið, úti í góða veðrinu. Ég hrekk upp við að tveir vinnumenn sem voru að gera við hús í nágrenninu fóru að kallast á og ég gat ekki betur heyrt að þeir væru pólskir. Ég starði smá stund á hunangsflugu sveima þarna nálægt mér (bæ ðe vei..... hvernig geta þessi flykki flogið???) en sökkti mér ofan í lestur bókarinnar aftur.
Ég var að lesa um eymdina sem höfundurinn upplifði og meðal annars þegar hann talaði um dauðann. Ég var svoooo á kafi í þeim kafla þegar ég heyri óminn af "ave maria" og ég hélt að ég væri orðin alvarlega ímyndunarveik. Ég leit upp og enn heyrði ég þetta. Það var ekki um að villast að nágranni minn var að hlusta á útfaratónlist!! Ég hætti að lesa í smá stund, lyngdi aftur augunum og leyfði sólinni að baka mig í framan á meðan ég hugsaði um það sem ég hafði lesið.
***
Ég hef lent í svona áður. Eitthvað tengt því sem ég er að lesa gerist í kringum mig þegar ég er svo gott sem inn í bókinni. Heimilisfólkið hérna þekkir mig það vel að það veit að þegar ég er með bók í hönd þá er ég sambandslaus, og þar til bókin er búin þýðir ekkert að vola yfir skort á hreinum sokkum eða vöntun á almennilegum kvöldmat. En til allra lukku er þetta heimilisfólk mitt það vel gefið að það veit hvernig það getur stytt svona ástand. Það getur borið í mig mat á meðan ég les og þá þarf ég ekki að gera hlé á lestrinum til að bjarga mér sjálf.
Það er nú ekki oft sem það eru til ferskjur hérna á heimilinu, en þegar ég las um bíflugurnar og þeirra leyndardóm þá var ég komin inn í bókina eins og oft áður en sagan gerist á ferskjubúgarði. Ég er að skottast þarna um á milli ferskjutrjánna með aðalsöguhetjunni, sá fiðrildin flögra um og horfði á ferskjurnar sem voru orðnar vel þroskaðar, þegar ég finn þessa svakalegu ferskjulykt. Ég var í smástund að átta mig á að hún kom ekki úr bókinni heldur "utan frá". Ég leit upp og þarna stóð helmingurinn minn með disk handa mér með niðurskorni ferskju á og rétti mér!! Ég hélt að hakan á mér dytti niður í gólf. En ég hélt lestrinum áfram og nartaði í ferskjur á meðan, þetta var bara ekki hægt að toppa! Þetta var albesta ferskja sem ég hef á ævinni smakkað!
***
Sumarliturinn er að færast yfir mig. Ég er eeeeldrauð og svei mér þá ef það hafa ekki bara fæðst nokkrar freknur á mér í dag. Góður dagur og ég er þakklát.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2007 | 21:54
enn bíð ég
Ég er ennþá að bíða eftir sumrinu. Fullt af sól en ekki orðið bikinífært út í skoti hjá mér ennþá.
Ég hef oft sagt þetta áður en ég er sumarbarn. Ég fæddist um hásumar og hef sennilega kunnað vel við það því að mér er meinilla við allar aðrar árstíðir. Ég þrífst best í birtu og yl, rétt eins og önnur blóm ;)
Lóan er uppáhaldið mitt því að hún er fyrirboði um blóm í haga og betri tíð.
Páskarnir eru líka uppáhaldið mitt því að þá veit ég að það er aaaalveg að koma vor og lóan sé á næsta leiti og sumarið í startholunum.
Formúlan er líka uppáhaldið mitt því að hún kemur rétt á undan lóunni og páskunum og segir mér að lóan sé alveg að koma og þar af leiðandi sé sumarið í nánd.
Þorrinn er líka uppáhaldið mitt því að þá veit ég að formúlan sé alveg að fara að koma og því sé stutt í páskana og þá er lóan ekki langt undan og því alveg að koma sumar :)
Áramótin eru ágæt, því að þá veit ég að þorrinn sé bráðlega og hann segir mér að það sé nú ekki svo langt í formúluna og þá fara páskarnir alveg að koma og þegar þeir eru búnir þá kemur lóan og það endar með sumri :)
Svona kemst ég í gegnum árið. Mér finnst verslunarmannahelgin verst, því þá veit ég að sumarið er sigið á seinni helming og laaangt í næsta.
Ljós punktur þrátt fyrir lofthitaleysið....... bólan er farin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 19:52
Skór
Ég verð að játa mig eina af þessum konum sem missa þvag þegar þær fara inn í skóbúð.
En því miður þá fara þessir 2 kvillar ekki saman. Að vera skófíkill og vera vanafastur!
Ég á fleiri skópör en ég legg á mig að telja en samt enda ég oftast í sama skóparinu! Átfittið hverju sinni er oftar en ekki valið út frá skónum, fyrst vel ég skó og svo hvað gengur með þeim! En alltaf eru þeir með háum hæl, ég er bara þannig gerð frá náttúrunnar hendi að hælar henta mér vel.
Uppáhalds skóparið mitt eru einu Ecco skórnir sem ég hef séð sem eru ekki hallærislegir, vanalega eru ecco skór fótlaga og meira svona fyrir "flíspeysufólk". En ég féll fyrir þessum fyrir rúmum 2 árum þegar ég var á leiðinni á ráðstefnu í París og vantaði skó til að fara í. Ég man eins og það hafi gerst í gær hvað mér kenndi óstjórnlega til í fótunum eftir að hafa þrammað um Versali og París í 3 daga í glænýjum skóm. Ég fann apótek og spurði afgreiðslustúlkuna hvort að hún ætti kælikrem fyrir fætur en hún yppti öxlum og skildi ekki rass. Svo ég benti á fæturnar á mér og nuddaði svo saman höndunum og sagði "brrrrrrr". Stúlkugreyið starði á mig smá stund forviða en svo allt í einu færðist bros yfir andlitið á henni og hún sótti sokka og vettlinga fyrir mig! Eftir smá útskýringar á táknmáli þá fattaði hún hvað ég átti við en þá voru fæturnir á mér of langt leiddir til að kælikrem gæti einhverju bjargað.
Ég hélt eftir að ég kom heim að ég færi aldrei aftur í þessa skó. Blótaði þeim sem sagði mér að Ecco væri málið.
En ég gaf þeim sjens og í dag eru þeir næstum fastir á fótunum á mér. Ég er búin að kaupa mér nokkra tugi skópara síðan en alltaf fer ég í ecco skóna. Ég er búin að hafa augun opin fyrir arftaka þessara og farið nokkrum sinnum í ecco en þeir hafa greinilega bara náð að slysast einu sinni að búa til smart skó!
Núna verð ég að horfast í augun við staðreyndir. Þessir skór eru búnir að þjóna mér lengi og orðnir lúnir og þreyttir og ég verð að fara að senda þá til Afríku. Ég er að þjálfa aðra í að taka við sprotanum, en ég hef svo sem þjálfað aðra í sama tilgangi en engir verið þess verðugir.
Það er vont að vera vanafastur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2007 | 22:29
2ja blogga bóla
Átti skemmtilega helgi í skemmtilegum félagskap. Ég reyndi ég að fela bóluna en þegar ég var komin með hól af bóluhyljara á ennið þá varð mér ljóst að hyljara taktík var ekki að virka, það var eins og ég væri alvarlega holdsveik. Og hvað gerir maður þá?
Nú ég snéri þessu upp í grín og teiknaði hjarta í kringum drussssluna. Svona smá steitment á kvikindið að "Dónt mess viþþ mí"! Helmingnum mínum fannst þetta ekki sérlega fyndið en ég sagði að þetta ætti að tákna hvað ást mín til hans blómstrar. Honum fannst það ekki vitund rómó og sótti N1 derhúfu sem honum áskotnaðist og skellti á hausinn á mér. Svo ég tók á móti gestum í afmælið í kjól, háum hælum og með N1 derhúfu á hausnum! Einn gesturinn hvíslaði að hann hefði í mínum sporum fórnað hárinu og látið klippa á sig topp!
Þurfti að mæta á fermingarundirbúningsfunds í gær (ekki seinna vænna!), ásamt glás af hormónasprengjuforeldrum og ég er nokk viss að enginn heyrði neitt hvað presturinn sagði, það hafa sjálfsagt allir starað á bóluna. Ég þakkaði gvuði fyrir að Spaugstofan er komin í sumarfrí því að eitt foreldrið var að mér sýndist Karl Ágúst yfirspaugari og sá ég alveg í augunum á honum hvernig efni í spaugstofuþátt fæddist þarna í hausnum á honum þegar hann starði eins og allir hinir á bóluna.
Ákvað í morgun að setja plástur á fyrirbrigðið og fara í gallabuxum í vinnuna. Fyrst að ég var drussluleg hvort eð er þá væ nott taka það alla leið? Skutlaði frumburðinum upp á spítala og hinkraði á meðan verið var að pína hann, skildi hann svo eftir og skaust í vinnuna. Fékk vægt áfall þegar ég opnaði dagbókina mína og sá að það var stór fundur í dag (og ég í gallabuxum með plástur á enninu!). Skaust úr vinnunni og sótti afsprengið, skutlaði honum heim og náði að fara í pæju/bissness gallann á met tíma. Mætti sveitt á fundinn. Einhver kommentaði á plásturinn á enninu á mér og ég sagði að ég hefði verið að láta fjarlægja fæðingarblett.
Fundurinn teygðist í maraþonfund. Og ég sem hélt að plástur hefði verið smart múv hjá mér þá einhvernveginn fannst mér allir tapa sér annað slagið í störu á ennið á mér en ég vissi að ég var með plástur og í pæjudressi og pinnahælum svo ekkert gat klikkað.
Eftir 3ja tíma fundarsetu hafði mér tekist að gleyma bóluskrattanum og kvaddi með handabandi og labbaði nokkið ánægð með mig út í bíl. Ég átti alveg nokkur góð inpútt á fundinum.
Ég startaði bílnum og hagræddi baksýnisspeglinum.......... það var þá sem ég sá sjálfa mig í spegli. Í öllum hamagangnum að ná á fundinn á réttum tíma hafði ég greinilega svitnað og plásturinn losnað og hékk nú framan í mér á smá skinni. Bólan glotti framan í mig og sem aldrei fyrr í fullum blóma. Henni hafði nægt hingað til að vera bara rauð og áberandi, en núna var hún....... ja við getum sagt að ég skil núna af hverju enginn notaði dippið fyrir babygulræturnar á fundinum!
Mikið rosalega held ég að það hafi farið fyrir ofan garð og neðan það sem ég sagði á fundinum með plástur lafandi á enninu og ógeðslegustu bólu ever fyrir allra augum!
Í ofanálag er ég feit í dag líka!
Ég ætla ALDREI aftur að blogga um bólu, hún ofmetnaðist!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2007 | 22:35
Bóla
Úfffff, undanfarið hef ég verið með feituna og ljótuna alveg á fullri keyrslu áfram en í gær fór ég að finna fyrir kunnulegum óþægindum á enninu til að toppa allt.
Byrjaði rautt og sakleysislega, en ég vissi svo sem hvað var í vændum því að ekki er þetta verkjalaust rétt áður en þetta blómstrar. Vinkona mín sannfærði mig um daginn að kaupa eitthvað stöff á svona ófögnuð sem gerir það að verkum að þetta á víst að hverfa á núll einni en ég er farin að hallast að vinkona mín sé með skepnulegan húmor og þetta sé nærandi vaxtarefni fyrir graftakýli!
Í morgun fæddist það svo. Þegar helmingurinn minn vaknaði í morgun og leit á mig þá kom stór gretta framan í hann en hann þekkir mig nógu vel til þess að kæfa veinið í koddann.
Í allan dag hef ég reynt að greiða hárið fyrir ennið, en það er erfitt þegar maður er með sítt hár allan hringinn, með engan topp. Hvorki a-b-c né d virkar í svona tilfellum! Pínlegt þar sem ég er frekar lágvaxin og ennið á mér í beinni sjónlínu við eðlilega vaxið fólk. Ekki nokkur leið að fela skrímslið!
Ég gekk á 2 hillur í videoleigunni með tilheyrandi látum, ég sá ekki út fyrir hárið. Ég mælist til þess að þeir sem reka svona staði setji franskan rennilás á hulstrin og á hilluna, hver hefur ekki lent í því að reka sig í eitt hulstur sem svo stigmagnast og endar með að 200 hulstur liggja á gólfinu?
"kennitala" sagði afgreiðslustelpan við mig og reyndi að kíkja upp undir hárið á mér til að sjá framan í mig. Ég þuldi hana undan hárinu eins og þunglyndur síðhærður unglingur sem rétt grillir í nefið á, en þrátt fyrir að vera með slatta af hári á hausnum þá vissi ég vel afherju fólkið þarna inni pískraði og benti á mig. Svo áður en ég gekk út ákvað ég að kalla hátt yfir búðina " NEI...... heilinn á mér er ekki að koma út um ennið á mér, þetta er bóla, svo hættið að glápa" svo sveiflaði ég hárinu fyrir andlitið á mig, snérist á hæl og gekk á dyrakarminn á leiðinni út!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2007 | 16:26
Ennþá feit og pirruð!
Unglingaafmæli í uppsiglingu, frumburðurinn varð táningur um daginn og þrátt fyrir að ég sé búin að teygja lopann hvað afmælisveislu varðar þá sé ég fram á að ég get ekki sloppið við hana! Ég var ekki viðlátin þegar það var verið að deila bökunarhæfileikum og satt best að segja er ég vanalega með ágætis jafnaðargeð (nema þegar ég verð svöng), en í kringum svona tilstand er ég varla sambúðarhæf!
Helmingurinn minn finnur sér líka alltaf alveg stórmerkilegt að gera þegar svona stendur á. Hef hann grunaðan að skipuleggja nauðsynlega fundi af miklum móð í kringum afmælisdaga fjölskyldumeðlima! Veit eiginlega ekki hvort að það er skapið í mér eða hreingerningar sem hann forðast. Þá erum við komin að þeirri spurningu.... hvort kom fyrst, eggið eða hænan? Er ég pirruð yfir því að standa í þessu ein eða er ég ein í þessu af því ég er pirruð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 19:44
Fitubolla
Ég er feit í dag, fann í gær hvernig buxnastrengurinn grófst inn í ástarhandföngin mín, og mér er gersamlega fyrirmunað að skilja hvernig 100gr af súkkulaði og 1 líter af hunangsbjór geti orðið að rúmlega 2 kílóum! Ég er hlýt að vera búin að pissa bjórnum!
Í dag er ég í fýlu...... feit og í fýlu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.5.2007 | 19:28
Sumir dagar.... Sumardagar
Ég hélt að seinniparturinn í dag yrði sumardagur. Keyrði heim örugglega á rúmlega leyfilegum hámarkshraða sem er mjög ólíkt mér og byrjaði að fækka spjörunum strax í forstofunni. Mér lá svo á að komast út í sólina að ég bað eldri afleiðinguna um að taka upp úr innkaupapokanum og ganga frá því fyrir mig. Ég er nefnilega orðin svooo sólarþurfi.
Ég náði mér í teppi og púða og valhoppaði út.
Ég er ekki viss um að báðir fæturnir hafi verið komnir yfir þröskuldinn þegar ég fann að bikiní væri sennilega ekki málið í dag, ég fór sneipt inn og minnti sjálfa mig á að það væri rétt kominn 2. maí og ég væri kannski full bráðlát með bikiníið. Mér fannst bara einhvernveginn eftir að hafa séð myndir af fáklæddum börnum sulla í sjónum fyrir norðan að það væri orðið hlýrra.
Ég gerði aðra tilraun og í þetta skipti var ég nú komin í stuttbuxur og bol. Ég komst örlítið lengra en fyrra skiptið en þurfti að snáfa aftur inn og klæða mig.
Að lokum lagðist ég út, fullklædd og í þykkri peysu, undir teppi og hlustaði á frumburðinn spila á gítar. Eftir margra ára "sexstrengja" óhljóð frá þessu hljóðfæri er drengurinn loksins farinn að framkalla yyyyndislega tónlist úr kassagítarnum sínum og var því leiðin greið inn í draumaland.
Klukkutíma síðar rankaði ég við mér sennilega með líkamshita upp á 32 gráður. En svei mér þá ef mér hefur ekki tekist að næla mér í smá lit, komin með rjóðar kinnar :)......
.....................Nema þetta séu kannski kalblettir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 09:38
Dagur í lífi konu með sítt hár!
Ég er með slatta af hári á hausnum, eiginlega nær það þónokkuð niður fyrir herðablöð og hefur oft hvarflað að mér að láta klippa mig og verða fullorðin en ég er ekki alveg tilbúin fyrir "fullorðna lúkkið" ennþá.
Þegar ég vakna á morgnanna og skreiðist á lappir þá er hausinn á mér frekar skondinn, furðuleg hrúga á hausnum á mér og það er engu líkara en að storkur hafi gert sér hreiður á toppstykkinu á mér. Eftir að hafa gefið afleiðingunum morgunmat og sent þau af stað að drekkja í sig þekkingu þá sæki ég hárburstann og reyni að komast í gegnum þetta hreiður, rétt á meðan vatnið í sturtunni er að hitna.
Í sturtu þá gerist ég sek um óvistvænt verk. Um það bil hálfur líter af sjampó og hárnæringu rennur frá mér út í sjó á degi hverjum en það er eina leiðin til að ég ráði við þetta hár! Þegar sturtan er búin smelli ég handklæði utan um hárið og í móðunni á speglinum þá svipar mér fljótt á litið til Múhammed Assiri með þennan flotta túrban á hausnum. En með þetta höfuðfat á hausnum tekst mér að þurrka mig, smyrja mig með allskonar vellyktandi kremum, klæða mig og hreinsa úr niðurfallinu á sturtunni. Það sem kemur þar upp úr er eitthvað hrúgald sem Liz Taylor gæti haft augastað á sem kollu.
Þá er það hárið..... Þegar kemur að því þá stend ég frammi fyrir nokkrum kostum. Mis fyrirhafnar og tímafrekum. Valkvíði.
a) Ég get verið með villtar krullur.
b) Ég get farið millileiðina og valið svona rúmlega liðað hár.
c) Ég get verið með rennislétt hár.
d) Ég get sett það í tagl.
Kostur a) er svona miðlungs tímafrekur. Til að ná fullkomnum krullum er best að sleppa því að greiða hárið og brúka fljótandi glaze í hárið, taka fram hárþurrkuna (eða það sem yngri afleiðingin mín kallar hana "vindtækið") og smella framan á hana trekt og þurrka smá blett í einu. ALLS EKKI nudda hárið eða hrista vindtækið því að þá verð ég eins og Michael Jackson um það leitið sem hann lék í Pepsi auglýsingunni.
Kostur b) er í rauninni mjög góður hvað varðar tíma, en áhættan sem fylgir þessu lúkki er gríðarleg. Liðað hár næst með því að greiða hárið eftir að handklæðið hefur verið fjarlægt og núna er tekið öllu stærra skref í áttina að gróðurhúsaáhrifunum og ein 2-3 efni sett í hárið (efast um að Vinstri grænir vilji hvort eð er atkvæði mitt), það svo aftur greitt og látið þorna svona "natural way". Frábærlega sniðugt, sérstaklega ef maður er á hraðferð, en galli á gjöf Njarðar er sú að þetta er mjög áhættusamt. Því ómögulegt er að vita hvernig hárið þornar. Það getur þornað algerlega í fullkomnum liðum. Það getur líka orðið líkara Michael Jackson í áðurnefndri pepsi auglýsingu...... eftir brunaslysið! það getur líka verið hvimleitt að vera með rennandi blautt bak á meðan þetta þornar.
Kostur c) er svaaaaakalegur. Þá þarf bæði að munda vindtækið og sléttujárn. Sléttujárnið er ekki hægt að nota nema að hárið sé þurrt svo að þetta getur verið ansi tímafrekt. Samt nokkuð umhverfisvænt að því leiti að ekki mikið af efnum er brúkað. Hinsvegar er þessi kostur bara raunhæfur ef ég er frekar nýkomin úr hárlitun, rót verður mjög áberandi í sléttu hári. Eins er þetta alls ekki sniðugur kostur ef það er rigning úti!
Kostur d) er í rauninni alls ekki kostur, hann er meira svona neyðarúrræði ef maður hefur t.d. sofið yfir sig. Neyðist ég til að nota þennan kost þá reyni ég að fara huldu höfði í vinnunni, læsi hurðinni á skrifstofunni minni og bruna svo beinustu leið heim eftir vinnu og kem hárinu í ástand a, b eða c.
Svo er bara að leggjast á bæn og óska þess að veðrið verði manni hliðhollt og maður lendi ekki í mikilli ofankomu eða roki, því að þá öðlast hárið sjálfstæðan vilja og við höfum alls ekki sama smekk!
Dagur í lífi konu með sítt hár er að kveldi kominn. Þegar ég leggst upp í rúm þá sækir hárið mjög framan í mig og getur verið alveg svakalega hvimleitt að skyrpa út úr sér eigin hári sem ennþá er fast á hausnum á manni. En eftir að maður sofnar þá finnur maður ekki fyrir því að vera með heysátu á andlitinu, eina sem truflar svefninn er þegar helmingurinn minn leggst á hárið, það getur verið vont.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.4.2007 | 18:08
Hjólabuxur
Fyrir það fyrsta eru hjólabuxur alveg afskaplega ósmart þá er alveg ljóst að neyðist karlmaður til þess að fara í svona spandexflík þá borgar sig að hafa hana svarta........
Rautt er alla vega ekki málið........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)