Slökkviliðskonur

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vantar starfsfólk og hvetur konur til að sækja um.........

Ég sat í makindum mínum á svölunum á hotelinu á Spáni. Strákarnir allir voru að spila tennis og ég átti þarna með sjálfri mér "alein kósí stund". Ég lét sólina baka mig og hlustaði á mp3 spilarann minn. Ég er búin að vera óvenju rokkuð undanfarið og hafði ég safnað uppáhalds rokkinu mínu í grúppu í spilarann og gleymdi mér þarna algerlega.

Allt í einu fer ég að finna brunalykt. Ég með mína reykfóbíu rétti úr mér í stólnum, glenni upp augun og nasavængina og slekk á spilaranum. Ég horfi yfir sundlaugagarðinn og fólk lá þarna eins og klessur út um allt og þessi brunalykt virtist ekki vera að angra neinn. Ég fór inn og fullvissaði mig um að hótelherbergið okkar stæði ekki í björtu báli og dró svo djúpt andann og settist aftur út á svalir.

Ég hafði ekki setið lengi þegar brunalyktin ágerðist og enn virtist fólkinu sem lá við sundlaugarnar vera slétt sama. Mér fannst þetta fólk hálf kærulaust og hugsaði með mér að sennilega væri að kvikna í hótelinu og enginn kippti sér upp við neitt. Það snögg fauk í mig yfir þessu afskiptaleysi fólks og ég stóð upp og fór fram á gang.

Fram á gangi var reykur!!!!

Ég byrja yfirleitt á því þegar ég kem á hótel að kynna mér útgönguleiðir ef það kviknaði í og kynni þær fyrir börnunum mínum, einnig var ég ómeðvitað búin að leggja á minnið staðsetningu slökkvitækisins á ganginum. Ég reyndi að ganga á lyktina og reykinn en ég gat með engu móti fundið út hvaðan hann var. Reykurinn varð meiri og lyktin sterkari og mér varð ljóst þarna að það væri á mínum herðum að hótelið brynni ekki til kaldra kola. Enginn annar virtist hafa áhyggjur af þessu!

Ég gríp slökkvitækið af veggnum og byrja að ganga á íbúðirnar. Ég hef búið í þýskalandi og bretlandi og gestir hótelsins virtust einmitt bara vera frá þessum löndum svo að það var frekar létt verk að gera mig skiljanlega. Ég banka á hvert herbergið á fætur öðru, í bikiní, vopnuð slökkvitæki! Til allrar hamingju voru ekki margir inni á herbergjunum en enginn kannaðist við að það væri eldur inni hjá þeim og ég varð eiginlega reiðari þegar fólk þakkaði fyrir og lokaði aftur hurðinni!! Ætlaði mannskapurinn bara að brenna inni eða gera ekkert til að hjálpa til svo aðrir myndu ekki brenna inni? VAR ÖLLUM SAMA??? En þó eltu nokkrir forvitnir þjóðverjar mig og gengu í humátt á eftir mér, mér var samt ljóst að það yrði lítil hjálp í þeim. Ég var farin að sjá fyrirsagnir dagblaðanna fyrir mér "íslensk kona bjargaði hóteli frá því að brenna" og var farin að gæla við þá tilhugsun að ég fengi örugglega frítt sumarfrí þarna á hverju ári ævilangt! Það væri í rauninni það minnsta sem þeir gætu gert fyrir mig fyrir að bjarga hótelinu og gestum þess!

Ég var búin að ganga á öll herbergin á þessari hæð og fullvissa mig um að eldurinn var ekki frá neinu þeirra. Svo að ég varð að athuga næstu hæð fyrir neðan. Ég var meðvituð um það að maður notar ekki lyftu í eldsvoða svo ég var í þann mund að opna fram á stigagang þegar ég heyri læti frá lyftunni, ég hinkra og loks opnast lyftuhurðin. Fyrst sá ég ekkert fyrir reyk, en þegar rofaði til sá ég 3 vinnumenn með rafsuðutæki og fleiri verkfæri að gera við lyftuna!!! Ég veit eiginlega ekki hvert okkar varð mest hissa, ég að sjá þá þarna í reykjarkófinu inn í lyftugöngunum eða þeir að sjá mig þarna á bikiní með slökkvitæki og nokkra þjóðverja í bakgrunn!

Loks stundi einn þeirra "er kviknað í?"

Ég varð hálf kindarleg og reyndi að setja slökkvitækið aftur fyrir bak og svaraði "nei nei....... "

Þjóðverjarnir voru of kurteisir að til þess að skella upp úr fyrir framan mig, en ég tók eftir viprunum í kringum munninn á þeim þegar ég bisaðist við að hengja slökkvitækið upp á sinn stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband