Verk og vindeyðandi

Ég skrifa þessa færslu mjöööög varlega, enda hætti ég ekki á áreynslu af neinu tagi!

Ég er mikil grænmetisæta þótt ég borði það ekki eingöngu og fái mér blóðugar steikur inn á milli, en oftar en ekki panta ég mér grænmetisrétt þegar ég fer út að borða og eins elda ég mikið grænmeti heima. Eitt er þó í sérstöku uppáhaldi hjá mér og það er glænýtt, íslenskt grænmeti, hrátt og helst með moldinni á ennþá!

Haustin eru því góssentíð fyrir mig. 

Núna er haust.

Ég féll um daginn fyrir yndislega fallegum gulrótum út í búð. Þær voru alveg einstaklega girnilegar, litlar, stórar, og jafnvel símastvíburagulrætur inn á milli. Ég er ekki vaxin upp úr því að finnast gaman að fá óeðlilega vaxið grænmeti og fyllti pokann af gulrótum. Blómkálið var líka lokkandi, og fékk það að fljóta með. Broccoli er líka allra meina bót og það skartaði sínu fegursta þarna í grænmetisborðinu svo ég gat ekki látið það eiga sig. Svona gekk þetta þar til kerran var orðin stútfull af káli og skildum afurðum.

Alla þessa viku er ég svo búin að naga hrátt, gott grænmeti og haft með mér í poka hvert sem er. Á rauðu ljósi er gott að næla sér í gulrót að naga og í vinnunni er ég búin að vera eins og kanína...... allt svo fæðulega séð.

En alltaf kemur þetta í bakið á mér!

Ég byrjaði að finna fyrir óþægindum í gærkvöldi. Maginn var greinilega að reyna að átta sig á öllum þessum trefjum og greinilega vissi ekki almennilega hvar hann ætti að byrja. En þetta er svipað og með þyngdarlögmálið "það sem fer upp.... kemur niður", því það sem fer inn..... kemur út! Og í nótt byrjaði þetta að heimta að komast út í loftformi. Ég vaknaði nokkrum sinnum með þvílíka hríðarverki að ég hélt ég væri að því komin að fæða þegar ég áttaði mig á því að ég væri alls ekki með barni! Ég strauk af mér svitann og gerði nokkrar lamas öndunaræfingar..... hí hí húúúú hí hí húúúúú o.sv.fr.

Ég vaknaði þó furðu hress í morgun miðað við að hafa nánast fætt 15 börn á 5 tímum, sturtaði mig og var mætt galvösk á fund snemma. En það er ekki gott að vera á fundi og þurfa að tala þegar manni líður eins og hlaðin afskorin haglabyssa. Ég komst í gegnum fyrirlesturinn en talaði mjööög lágt því ég þorði ekki að reyna á mig. Ég var nefnilega einhvernvegin viss um að þarmarnir hefði viljað leggja "orð" í belg ef ég hefði talað hærra. Ég lifði af þennan fund og þegar ég var komin niður á skrifstofu þá leið mér ögn betur.

En það er náttúrulega lögmál að þegar eitthvað svona plagar mann þá er aldrei jafn mikið um fundi. Rétt fyrir hádegi byrjaði ég að finna fyrir "fyrirvaraverkjum" og vissi hvað var í uppsiglingu. Svo sem auðvitað því ég átti að mæta á fund í hádeginu á veitingahúsi í borginni. Á þeim fundi sagði ég sem minnst, kinkaði annað slagið kolli og sagði "já" og "nei" þegar ég neyddist til þess en þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja neitt sem byrjaði á Þ, því ég er viss um að bara það hefði triggerað þokkalegan aftansöng. Fundurinn gekk stórslysalaust fyrir sig og ekkert stórtjón hlaust af, en ég gekk út af veitingastaðnum eins og gamalmenni með slæma beinþynningu, ég var í keng.

Ég er enn í keng.

Hrátt grænmeti í miklu mæli er sennilega ekki gott fyrir mig

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband